Um 300 hand­teknir og fleiri en 100 slasast

Ringulreiðin var mikil í Frakklandi í dag.
Ringulreiðin var mikil í Frakklandi í dag. AFP/Alain Jocard

Nærri þrjú hundruð hafa verið handteknir og fleiri en hundrað lögregluþjónar slasast í átökum mótmælenda og lögreglu víða um Frakkland í dag.

Innanríkisráðuneyti landsins segir 782 þúsund hafa tekið þátt í mótmælunum en verkalýðsfélögin halda því fram að fjöldinn sé þrefalt hærri.

Í umfjöllun BBC kemur fram að mótmælin hafi að mestu farið vel fram en nokkrir róttækir hópar hafi kastað eldsprengjum og flugeldum að lögreglu og lögreglan svarað með táragasi og vatni. Mikil átök brutust út í París, Lyon, Toulouse og Nantes.

Mótmæli hafa staðið í landinu um nokkurt skeið vegna frumvarps forsetans, Emmanuel Macron, sem hækkaði eftirlaunaaldurinn úr 62 árum upp í 64 ár.

Forysta verkalýðsfélaganna býst ekki við að ástandið muni róast fyrr en eftirlaunaaldrinum verður breytt til baka. Frumvarpið varð að lögum þann 15. apríl síðastliðinn og er búist við því að þau verði innleidd í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert