Aukinn vandi steðjar að Rússlandi

Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP/Artem Geodakyan

Innrás Rússa í Úkraínu hefur aukið vandann í Rússlandi þegar kemur að fólksfjölda. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur átt í erfiðleikum með að takast á við vandamálið, sem gæti skaðað enn frekar efnahag Rússlands, sem nú þegar glímir við refsiaðgerðir vegna stríðsins.

Skortur á verkafólki hefur verið viðvarandi vandamál í Rússlandi vegna lágrar fæðingartíðni. Vegna stríðsins er búist við því að vandamálið muni aukast á næstu árum.

Rússneskir hermenn í Moskvu 27. apríl síðastliðinn.
Rússneskir hermenn í Moskvu 27. apríl síðastliðinn. AFP/Kirill Kudrayavtsev

Hundruð þúsunda manna fóru af vinnumarkaðnum eftir að þeir voru kvaddir í herinn, auk þess sem fjöldi menntafólks flúði landið.

„Rússa skortir starfsmenn,” sagði Alexei Raksha lýðfræðingur sem áður starfaði hjá rússnesku tölfræðistofnuninni Rosstat.

„Þetta er gamalt vandamál en það hefur versnað vegna herkvaðningar og vegna þess að fjöldi fólks hefur yfirgefið landið,” sagði hann.

Rússneskir hermenn í Moskvu.
Rússneskir hermenn í Moskvu. AFP/Alexander Nemenov

Lág fæðingartíðni í Rússlandi tengdist upphaflega falli Sovétríkjanna. Síðan þá hefur Pútín hvatt fólk til frekari barneigna, til dæmis með því að bjóða því fjárhagslegan bónus fyrir að eignast sitt annað barn og fyrir hvert barn sem fylgir í kjölfarið.

Rússar hafa ekki gefið upp hversu margir hermenn hafa fallið í stríðinu í Úkraínu síðan í september þegar varnarmálaráðuneyti landsins sagði að 5.937 hefðu dáið. Vesturlönd telja að um 150 þúsund manns hafi látist og særst í stríðinu, annars vegar frá Rússlandi og hins vegar frá Úkraínu.

Rússar höfðu áður misst um 400 þúsund manns vegna Covid-19, samkvæmt opinberum tölum. Raunverulegur fjöldi látinna er þó talinn mun hærri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert