Bandarískur fjallgöngumaður lést á Everest í gær og er hann þar með fyrsti útlendingurinn sem lætur lífið þar á þessu tímabili.
Fjallgöngumaðurinn var 69 ára og í um 6.400 metra hæð í öðrum búðum þegar hann lést.
„Honum leið illa og hann lést í öðrum búðum. Verið er að sækja lík hans,” sagði sjerpinn Pasang Tshering, leiðangursstjóri hjá Beyul Adventure sem er hluti af bandaríska fyrirtækinu International Mountain Guides.
Fjallgöngutímabilið á Everest hófst á hræðilegan hátt í síðasta mánuði þegar þrír nepalskir fjallgöngumenn létust á fjallinu, sem er það hæsta í heimi.
Stjórnvöld í Nepal hafa gefið út 466 leyfi til erlendra fjallgöngumanna í ár. Flestir þeirra þurfa á leiðsögumanni að halda og má því búast við að yfir 900 manns geri tilraun til að klífa fjallið á þessu tímabili, sem lýkur snemma í júní.