Handtekinn fyrir að kasta skothylkjum við höllina

Buckingham-höll í Lundúnum.
Buckingham-höll í Lundúnum. AFP

Maður var handtekinn fyrir utan Buckingham-höll í Lundúnum í kvöld. Hann er sagður hafa kastað hlutum sem grunaðir eru um að vera hylki utan um haglabyssuskot inn á lóð hallarinnar að sögn lögreglu.

Lögregla setti upp lokanir við höllina eftir að maðurinn var hnepptur í gæsluvarðhald af lögreglu um klukkan 19.00 í kvöld að staðartíma, eða um 18.00 á íslenskum tíma.  

Stýrð sprenging

Maðurinn reyndist einnig vera með grunsamlega tösku í fórum sínum að sögn lögreglu. Sprengjusveit Lundúnalögreglunnar sprengdu töskuna í varúðarskyni. 

„Lögreglumenn unnu strax að því að handtaka manninn og hefur hann verið hnepptur í varðhald,“ sagði Joseph McDonald yfirlögregluþjónn. „Engar tilkynningar hafa borist um að skotum hafi verið hleypt af, eða að einhverjir hafi sært lögreglumenn eða almenna borgara.“

Ekki er talið að málið sé hryðjuverk.

Konungsfjölskyldan hefur neitað að tjá sig um málið, en Karl og Kamilla voru ekki í höllinni þegar handtakan fór fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert