Bandarísk náttúruverndarsamtök hafa kært alríkisflugmálastjórn Bandaríkjanna (FAA) fyrir að beita sér ekki nægilega til þess að vernda umhverfið frá umsvifum geimtæknifyrirtækisins SpaceX, sem er í eigu Elons Musks.
Kæran á FAA kemur í kjölfar þess að geimflaug SpaceX, sem skotið var þann 20. apríl frá Texas, sprakk stuttu eftir flugtak. Sprengingin er sú stærsta sem orðið hefur í eldflaug, en myndband frá SpaceX sýndi brot úr geimskutlunni falla ofan í sjóinn. Einnig mátti sjá rykský setjast yfir smábæ í nokkurra kílómetra fjarlægð.
Á skotstaðnum er einnig að finna mikilvæg búsvæði fyrir verndaðar dýrategundir. Þar á meðal er tegund sæskjaldbaka og fuglategund af lóuætt, að sögn vísindamanna hjá stofnuninni CBD (Center for Biological Diversity), sem er meðal þeirra hópa sem höfðuðu mál gegn FAA.
FAA veitti SpaceX leyfi til að skjóta 20 eldflaugum á ári í fimm ár en þess er jafnframt krafist að fyrirtækið annist vöktun á gróðri og dýralífi með hjálp menntaðra líffræðinga. Þar á meðal á fyrirtækið að standa að könnun á umhverfinu fyrir og eftir flugtak.
Þessar aðgerðir, sem eiga að draga úr mengun, duga víst ekki til að mati náttúruverndarsamtaka sem kalla eftir heildarendurskoðun á umhverfismálum hjá SpaceX.
„Það er afar mikilvægt að við verndum líf á jörðinni, jafnvel þegar við horfum til stjarnanna,“ sagði Jared Margolis, lögmaður hjá CBD, í yfirlýsingu. „Forsvarsmenn ættu að verja viðkvæm dýralífssamfélög en ekki hafa hagsmuni fyrirtækja sem vilja nota dýrmætar strandlengjur sem ruslahauga fyrir geimrusl í fyrirrúmi.“
Hann segir að lokun strandarinnar við Boca Chica hafi einnig haft slæm áhrif á möguleika ættbálks innfæddra til þess halda athafnir á helgu svæði sínu. Ættbálkurinn er hluti af málaferlunum.
Þá olli skotið eldsvoða á um 1,5 hektara svæði í þjóðgarðinum í Boca Chica, sunnan við skotpallinn, samkvæmt bandarísku fisk- og dýralífsþjónustunni.