Lést á leið úr brúðkaupsveislunni sinni

Lögregluembættið í Charleston-sýslu hefur birt þessa mynd af ökumanninum, Jamie …
Lögregluembættið í Charleston-sýslu hefur birt þessa mynd af ökumanninum, Jamie Lee Komoroski.

Brúður á leið frá brúðkaupsveislu sinni lést þegar kona undir áhrifum áfengis keyrði á golfbíl þar sem hún var farþegi.

Atvikið átti sér stað á strandvegi í Suður-Karólínuríki að kvöldi síðastliðins föstudags.

Gögn úr bílaleigubíl ökumannsins, Jamie Lee Komoroski, sýna að hún ók á 105 kílómetra hraða, þar sem hraði er takmarkaður við 40 kílómetra á klukkustund.

Þrír slösuðust til viðbótar

Brúðurin, hin 34 ára gamla Samantha Miller frá Charlotte í Norður-Karólínu, lést við áreksturinn. Miller hafði gengið í hjónaband við athöfn aðeins nokkrum klukkustundum áður.

Þrír aðrir í golfbílnum slösuðust, þar á meðal brúðguminn.

Yfirvöld á staðnum segja að ljós golfbílsins hafi verið kveikt og að hann hafi mátt keyra að næturlagi, að því er AP greinir frá.

Móðir brúðgumans hefur hrundið af stað söfnun til að borga fyrir útför tengdadóttur sinnar og sjúkrakostnað sonar síns. Söfnuninni fylgir mynd af brúðhjónunum sem tekin var rétt fyrir slysið.

Hún segir son sinn alvarlega slasaðan, en til þessa hafa safnast um 400 þúsund bandaríkjadalir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert