Háttsettur maður í herskáu palestínsku hreyfingunni Islamic Jihad, Khader Adnan, lést í fangelsi í Ísrael eftir 86 daga hungurverkfall.
Adnan fannst meðvitundarlaus snemma í morgun. Hann var fluttur á sjúkrahús þar sem hann var úrskurðaður látinn, að því er BBC greindi frá.
Að sögn fangelsismálastofnunar Ísraels, IPS, hafði Adnan neitað að gangast undir læknisrannsókn.
Eftir að tilkynnt var um andlát hans skutu Palestínumenn þremur flugskeytum frá Gasasvæðinu en enginn særðist.
Hreyfingin Islamic Jihad, sem er með bækistöðvar á Gasasvæðinu, hafði áður varað við því að Ísrael myndi „fá það borgað” ef Adnan dæi í fangelsinu.
Hann var 44 ára og hafði verið ákærður fyrir að tilheyra hryðjuverkasamtökum. Réttarhöld yfir honum áttu að hefjast í þessum mánuði.