Hætt hefur verið við leit að þýfi nasista í hollenska smábænum Ommeren. Gullgrafarar í ævintýrahug hafa streymt til bæjarins eftir að fregnir af fjársjóðinum bárust. Tilkynnt var í dag að hætt hefði verið við leitina.
Talið er að þýfið hafi vissulega verið grafið í þorpinu, en það hafi verið fjarlægt þaðan eftir að stríðinu lauk.
Þjóðskjalasafn Hollands birti á dögunum handteiknað kort sem átti að gefa vísbendingu um það hvar þýfi nasista frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar væri grafið. Á kortinu mátti líta rautt X sem talið var gefa til kynna hvar fjársjóðurinn væri falinn, nefnilega í smábænum Ommeren.
Frá því að kortið var afhjúpað hefur fólk streymt til þorpsins í þeim tilgangi að freista gæfunnar.
„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að fjársjóð nasista sé ekki að finna í Ommeren,“ sagði Birgit van Aken-Quint, talsmaður nærliggjandi sveitarfélagsins Buren, í samtali við fréttastofu AFP.
„Við gerum ráð fyrir því að fjársjóðurinn hafi eitt sinn verið grafinn í Ommeren, en að hann hafi verið fjarlægður á einhverjum tímapunkti,“ sagði Van Aken-Quint.
Kortinu fylgdu einnig skjöl sem talin voru staðfesta að nasistarnir hefðu grafið fjórar skotvopnaöskjur fullar af skartgripum, eðalsteinum og gullpeningum. Þýfið var metið á rúmlega 11 milljónir evra samkvæmt núverandi gengi eða sem nemur um 1,6 milljarði íslenskra króna.
Nasistar áttu að hafa komist yfir þýfið í kjölfar þess að banki í Arnhem var sprengdur árið 1944. Þeir áttu síðan að hafa grafið þýfið eftir „Markaðsgarðs-sókn“ bandamanna í nágrenni við bæinn sama ár.
Ommeren lagði bann við notkun málmleitartækja í þorpinu í október í fyrra, mörgum mánuðum áður en kortið sem talið var vísa á leynda fjársjóðinn var afhjúpað.
Þetta varð þó ekki til þess að stöðva ævintýragjarna leitarmenn.
„Við höfum þurft að vísa að minnsta kosti fimmtán manns frá síðan í byrjun janúar vegna notkunar á málmleitartækjum,“ sagði Van Aken-Quint.
Fornleifafræðingar gerðu lokatilraun til að grafa upp þýfið í gær en fundu einungis gamla byssukúlu, hjólgjörð af bíl og gamalt ávaxtatré, sagði Van Aken-Quint. Hlutirnir hafi verið afhentir sveitarfélaginu.
Bann við notkun málmleitartækja verður áfram í gildi.
„Ef fólk fer aftur að reyna að finna fjársjóðinn, neyðumst við til að framfylgja banninu,“ sagði Van Aken-Quint.