New York fyrst til að banna gaseldavélar

New York varð í dag fyrsta fylki Bandaríkjanna til að …
New York varð í dag fyrsta fylki Bandaríkjanna til að samþykkja bann við gaseldavélum í nýjum byggingum. AFP/Michael M. Santiago

New York varð í dag fyrsta ríki Bandaríkjanna til að samþykkja bann við gaseldavélum og jarðefnaeldsneyti í nýjum byggingum. Löggjöfin er sögð sigur fyrir umhverfissinna. 

Löggjöfin var samþykkt í gærkvöldi á ríkisþinginu í Albany, þar sem flokkur demókrata er í meirihluta. Hún kveður á um að nýjar byggingar verði rafvæddar að fullu á innan við þremur árum. 

Löggjöfin er liður í því að gera fylkið óháðari jarðefnaeldsneyti og vinna þannig gegn hamfarahlýnun.

„Með því að breyta aðferðum okkar við framleiðslu og nýtingu orku og reiða okkur í minna mæli á jarðefnaeldsneyti stuðlum við að heilbrigðara umhverfi fyrir okkur og börnin okkar,“ sagði Carl Heastie, forseti neðri deildar ríkisþingsins. 

Taldar eru líkur á því að orkuiðnaðurinn höfði mál gegn ríkinu vegna löggjafarinnar, sem kveður á um að allar þær byggingar sem eru sjö hæðir eða lægri verði rafvæddar fyrir árið 2026. Lengri frestur er í gildi fyrir hærri byggingar sem á að rafvæða fyrir árið 2029. 

Sjúkrahús og aðrir nauðsynlegir innviðir á borð við samgöngumannvirki auk matvælaverslana eru undanþegin löggjöfinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert