Franski stjórnlagadómstóllinn hefur hafnað beiðni um að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um lögin umdeildu, þar sem eftirlaunaaldur í Frakklandi var hækkaður úr 62 ára aldri upp í 64 ára aldur.
Um það bil 250 þingmenn vinstriflokka óskuðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni til að koma í veg fyrir að eftirlaunaaldurinn myndi hækka, en lögunum hefur verið ákaft mótmælt síðustu fjóra mánuði.
Stjórnlagadómstóllinn hafnaði beiðninni á þeim grundvelli að hún stæðist ekki skilyrði um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómstólnum. Frumvarpið hefur þegar verið samþykkt og mun taka gildi seinna á þessu ári.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar ætla þó ekki að draga árar í bát, þar sem ný tillaga sem á að draga úr áhrifum frumvarpsins verður kynnt hinn 8. júní næstkomandi. Hins vegar þykir ólíklegt að tillagan verði samþykkt af báðum deildum franska þingsins.
Frönsk verkalýðsfélög hafa kallað eftir frekari mótmælum þann 6. júní.