Úkraínumenn segjast ekki hafa haft nokkuð að gera með þá drónaárás sem Rússar fullyrða að gerð hafi verið á Kreml. Stjórnvöld í Moskvu hafa sakað Úkraínu um að bera ábyrgð á því sem þau kalla banatilræði við forsetann Vladimír Pútín.
Rússar segja að tveimur drónum hafi verið beint að bústað Pútíns í Kreml í nótt. Um sé að ræða hryðjuverkatilraun Úkraínumanna.
„Úkraína hafði ekkert að gera með drónaárásir á Kremlina,“ segir talsmaður forsetans í Kænugarði, Mikhaíló Pódoljak.
„Úkraína ræðst ekki á Kremlina því að í fyrsta lagi þá uppfyllir það engin hernaðarleg markmið,“ bætir hann við.
Gefur hann til kynna að árásin kunni að hafa verið sett á svið.
„Slíkar sviðsettar fregnir frá Rússlandi“ ættu að skoðast aðeins sem tilraun til að búa til jarðveg fyrir stærðarinnar hryðjuverk gegn Úkraínu.
Fregnirnar berast á sama tíma og Úkraínumenn búa sig undir gagnsókn á vígstöðvunum í austurhluta landsins.
Pódoljak segir að það að ráðast gegn Kreml væri „afar óhagstætt út frá því sjónarmiði að undirbúa okkar sóknaraðgerðir“. Myndi það aðeins ögra Rússlandi og knýja það til enn róttækari aðgerða.
Undanfarna daga hefur orðið vart við það sem virðast vera árásir spellvirkja í Rússlandi. Í Kænugarði hefur ríkt sú stefna að lýsa slíkum skemmdarverkum ekki á hendur sér.
„Úkraína heyr algjört varnarstríð og ræðst ekki gegn skotmörkum á landsvæði rússneska sambandsríkisins,“ segir Pódoljak.