Rússnesk skip, búin útbúnaði sem gerir þeim kleift að sinna verkefnum á hafsbotni, voru nokkur skipti í námunda við Nord Stream-gasleiðslurnar í Eystrasalti áður en skemmdarverk voru unnin á leiðslunum í lok september. Var eitt þeirra þar á sveimi fjórum dögum áður en öflug sprenging varð við leiðslurnar sem olli gríðarmiklum gasleka úr þeim.
Frá þessu greina skandinavísku ríkisútvörpin fjögur sem nýlega birtu umfjöllunina Skuggastríðið um njósnir og skemmdarverkaundirbúning Rússa, einkum á hafi úti. Hafa þessir fjölmiðlar nú, með greiningu á fjarskiptum auk gervitunglamynda frá norsku fyrirtækjunum Vake og KSAT, staðsett skipin nærri leiðslunum á þeim tíma sem um ræðir.
Eru samskiptin skeytasendingar milli skipanna og rússneskra herstöðva sem koma upp um ferðir skipanna. Voru þau í þrígang í siglingum milli Rússlands og umrædds svæðis í Eystrasalti tímabilið júní til september í fyrra og höfðu allt að sólarhringsviðdvöl í nágrenni við gasleiðslurnar.
Að sögn sérfræðinga KSAT sýna gervitunglamyndirnar að rússneska skipið Sibiryakov var í nokkur hundruð metra fjarlægð frá þeim stað þar sem sprengingin varð.
„Þetta er athyglisvert og sýnir að Rússarnir hafa verið með sjóför á svæðinu sem hafa útbúnað til að kortleggja hafsbotninn,“ segir Tor Ivar Strømmen sem kennir aðferðafræði hernaðaraðgerða á sjó við norska Sjóherskólann, Sjøkrigsskolen, í Bergen.
Norska ríkisútvarpið NRK á sér breskan heimildarmann sem er fyrrverandi leyniþjónustumaður og fékkst á sínum tíma við eftirlit með herflota Rússa, þar á meðal hlerun fjarskipta hans. „Það er í meira lagi grunsamlegt að rússnesk sjóför með búnað til að framkvæma aðgerðir neðansjávar hafi þrisvar sinnum verið stödd í námunda við Nord Stream-leiðslurnar árið 2022,“ segir hann við NRK.
Fjarskipti rússnesku skipanna snúast meðal annars um staðsetningu þeirra, stefnu og hraða og því auðvelt að kortleggja ferðir skipanna út frá þeim gögnum. Það fyrsta þeirra lagði í haf frá flotastöð Rússa í Kalíníngrad 6. júní og kom á svæðið norðaustan við dönsku eyjuna Borgundarhólm daginn eftir. Þar sigldi það um svæðið nærri leiðslunum í margar klukkustundir en þær liggja á 80 metra dýpi.
Ríkisútvörpunum fjórum, DR, NRK, SVT og YLE, hefur ekki auðnast að bera kennsl á fleiri skip en áðurnefnt Sibiryakov en breski leyniþjónustumaðurinn fyrrverandi segir þau öll hafa haft samskipti á bylgjulengd rússneska sjóhersins við stöðina í Kalíníngrad.