Segir Rússa reyna að „selja“ stríðið

Selenskí á fundinum nú síðdegis.
Selenskí á fundinum nú síðdegis. AFP

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir ásökun Rússa í garð Úkraínumanna, um að hafa gert tilræði við líf Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, vera tilraun til að „selja“ rússneskum almenningi ástæður til að halda stríðinu í Úkraínu áfram.

„Pútín hefur enga sigra til að segja frá,“ sagði Selenskí á blaðamannafundi í Helsinki síðdegis í dag, um leið og hann fullyrti að Rússar væru að tapa stríðinu.

Tilefnið var spurning blaðamanns um ásakanir Rússa á hendur Úkraínumönnum. Segja þeir að tilraun hafi verið gerð til þess að drepa Pútín með dróna. 

Af þeirri ástæðu væri verið að búa til tylliástæður svo rússneskur almenningur gæti hugsað sér að senda fleiri hermenn í stríðið.

Þá fullyrti hann að Úkraínumenn einbeittu sér einungis að því að verja landið og að það væri af og frá að til stæði að ráða Pútín af dögum. Sagði hann að lokum að hann myndi leggja málið í dóm óháðra aðila til að meta sannleiksgildi ásakana Rússa.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á fundinum í dag. AFP

Selenskí þakklátur Katrínu

Á fundinum þakkaði Selenskí Dönum fyrir hernaðaraðstoð sína, og Norðmönnum fyrir vopnin sem framleidd eru í landinu auk fjárhagsaðstoðar.

Einnig þakkaði hann Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, fyrir afdráttarlausa afstöðu þess efnis að Rússum verði gerðir ábyrgir fyrir aðgerðum sínum í Úkraínu og að Rússum beri að greiða skaðabætur.  

Ráðherrar Norðurlandanna kepptust við við að ítreka stuðning sinn við Úkraínu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var fyrst ráðherra til að ávarpa fundinn eftir að Sauli Niinistö, forseti Finnlands, og Selenskí höfðu talað.

Þar lagði hún áherslu á enn meiri stuðning við Úkraínu. Sagði hún jafnframt mikilvægt að Rússar væru gerðir ábyrgir fyrir þessari ólöglegu árás á sjálfstæða þjóð. 

Friðaráætlun rædd í Reykjavík 

Eins sagði hún að mikilvægt væri að fara ítarlega í friðaráætlun sem fram hefur verið sett af Selenskí í tíu atriðum og að hún yrði rædd á leiðtogafundi Evrópuráðsins sem haldinn verður í Reykjavík 17. og 18 maí.

„Við þurfum að ræða það hvernig við getum komið á friði á sanngjörnum forsendum og hvernig við getum byrjað það ferli að ræða hvert og eitt þessara tíu atriða. Sum þeirra verða rædd í Reykjavík. Önnur þarf að ræða á milli ríkja á ólíkum sviðum,“ sagði Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert