Selenskí óvæntur gestur í Helsinki

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Sauli Niinistö Finnlandsforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Sauli Niinistö Finnlandsforseti. AFP/Vesa Moilanen Lehtikuva

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er á leið til Helsinki, höfuðborgar Finnlands, og verður sérstakur gestur á leiðtogafundi Norðurlanda, sem þar fer fram í dag. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er á leið til Finnlands og sækir fundinn fyrir Íslands hönd, en hann hefst síðdegis í dag.

Mikil leynd hefur hvílt yfir komu Selenskís til Finnlands, en hún á sér skamman aðdraganda. Sú leynd er rakin til umfangsmikilla öryggisráðstafana hér í Helsinki, en forsætisráðherrunum norrænu hefur verið kunnugt um hana frá því að Selenskí þekktist boðið.

Leiðtogafundurinn er haldinn í boði Sauli Niinistö Finnlandsforseta og fer fram í forsetahöllinni í Helsinki.

Fyrir utan finnsku forsetahöllina.
Fyrir utan finnsku forsetahöllina. AFP/Vesa Moilanen / Lehtikuva

Öryggis- og varnarmál í brennidepli

Þar munu þau auk þeirra Selenskís og Katrínar, koma fram Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur.

Á dagskrá leiðtogafundarins eru öryggis- og varnarmál í ljósi breyttrar stöðu alþjóðamála í brennidepli, auk norrænar samvinnu og eindregins stuðning Norðurlandanna við Úkraínu í vörn hennar gegn innrás Rússa.

Heimsókn Selenskís á fundinn ætti að skerpa enn á þeirri hlið málsins, en gert er ráð fyrir að leiðtogarnir ítreki stuðning sinn við Úkraínu í bráð og lengd.

Aukins stuðnings við Úkraínu vænst

Stríðið í Úkraínu hefur verið í járnum undanfarnar vikur, en gagnsóknar Úkraínu er vænst á næstu dögum. Töluverður liðssafnaður hefur verið beggja vegna víglínunnar, en áhyggjur hafa verið látnar í ljós um að Úkraínu skorti skjótt skotfæri ef bardagar harðna.

Þetta er fyrsti leiðtogafundur Norðurlanda síðan Finnar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO) í liðnum mánuði, en Svíar bíða þess enn að fallist verði á inntökubeiðni þeirra í bandalagið.

Þetta er fyrsti leiðtogafundur Norðurlanda síðan Finnar gengu til liðs …
Þetta er fyrsti leiðtogafundur Norðurlanda síðan Finnar gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið (NATO) í liðnum mánuði. AFP/Vesa Moilanen / Lehtikuva

Samvinna Norðurlanda á sviði varnar- og öryggismála hefur aukist töluvert á undanförnum árum, en sérstaklega eftir innrásina í Úkraínu og þá breyttu mynd, sem við blasir í ljósi ýfinga Rússa við velflesta granna sína. Norðurlöndin hafa einnig verið mjög samstíga í viðbrögðum við því, bæði gagnvart Rússlandi, Úkraínu og í alþjóðasamfélaginu.

Sanna Marin, fráfarandi forsætisráðherra Finna, situr leiðtogafundinn hins vegar ekki, en hún hefur leitt starfsstjórn frá því að hún baðst lausnar í kjölfar kosningaósigurs snemma í apríl. Petteri Orpo, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, á í stjórnarmyndunarviðræðum um ríkisstjórn borgaralegra flokka.

Gert er ráð fyrir að Katrín Jakobsdóttir snúi aftur til Íslands á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert