Selenskí Úkraínuforseti vonast eftir eindregnari vilyrðum um aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu (NATO) í framtíðinni og ítrekar þörf landsins fyrir frekari hernaðaraðstoð til þess að hrinda innrás Rússa í landið.
Á blaðamannafundi í finnsku forsetahöllinni, sem lauk fyrir stundu, sagði Volodimír Selenskí Úkraínuforseti að afstaða NATO um að Úkraínu stæðu „opnar dyr“ inn í bandalagið, eftir að stríðinu lýkur og ágreiningur um landamæri væri felldur, væri góð út af fyrir sig, en sagði að úkraínska þjóðin vildi finna meira frumkvæði frá NATO-ríkjunum um framtíðaraðild, þó ekki væri nema til þess að blása henni baráttuþrek í brjóst.
Selenskí kom til forsetahallarinnar í Helsinki fyrr í morgun, þar sem Sauli Niinistö Finnlandsforseti tók á móti honum við hátíðlega athöfn; þar sem þjóðsöngvar landanna voru leiknir, heiðursvörður kannaður og gesturinn kynntur fyrir helsta fyrirmenni landsins. Athygli vakti að í þeim hópi voru fulltrúar allra deilda finnska hersins.
Forsetarnir áttu stuttan fund í einrúmi áður en þeir komu fram á blaðamannafundi, þar sem þeir ítrekuðu náin tengsl landanna og viðverandi stuðning Finnlands við vörn Úkraínu. Selenskí þakkaði kærlega fyrir þann stuðning og vék að því að Finnar byggju yfir svipaðri reynslu og Úkraínumenn af landvinningastefnu Rússa. Því þakkaði hann Finnum fyrir að skilja nauðsyn þrautseigju og sóknar til þess að hafa sigur í stríðinu.
Það segir sína sögu að Finnland er fyrsta norræna ríkið, sem Selenskí hefur heimsótt síðan stríðið hófst, og raunar aðeins fimmta evrópska ríkið, sem hann hefur heimsótt á meðan á stríðinu stendur.
Selenskí vék á blaðamannafundinum að gagnsókn Úkraínu, sem hann sagði að væri von á innan tíðar, og að Úkraína þyrfti sem fyrr vopn, verjur og skotfæri. Spurðir að því hvort önnur Evrópuríki myndu ekki leggja Úkraínu til orrustuþotur sagði Niinistö að það væri hægara sagt en gert; þær vélar sem Finnar gætu lagt af mörkum væru komnar nokkuð til ára sinna.
Selenskí sagði að hann hefði skilning á því að erfitt gæti verið að koma til móts við allar þarfir Úkraínumanna, en bætti við með blik í auga að honum litist vel á allar finnskar flugvélar óháð aldri og uppskar hlátur fyrir svarið.
Síðar í dag hittir Selenskí forsætisráðherra annarra Norðurlanda, sem þangað eru komnir á leiðtogafund Norðurlanda í boði Finnlandsforseta. Þeir munu hver um sig einnig eiga einkafund með Selenskí. Margt bendir því til að hið raunverulega tilefni leiðtogafundarins hafi verið að hitta Selenskí, þó leynt hafi verið farið með það allt þar til Selenskí var lentur á finnskri grundu í morgun.
Selenskí er sérstakur gestur á leiðtogafundi Norðurlanda, sem fram í Helsinki í dag. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er komin til Finnlands og sækir fundinn fyrir Íslands hönd, en sameiginlegur fundur þeirra hefst innan skamms.
Auk þeirra koma þau Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, til fundarins.