Ógrynni skotfæra á vatnsbotni

Skotfærakassi á botni Mjøsa, einn af allmörgum ef marka má …
Skotfærakassi á botni Mjøsa, einn af allmörgum ef marka má nýjar niðurstöður um að þau 100 til 200 tonn af skotfærum sem talið var að lægju í vatninu séu bara dropi í hafið. Ljósmynd/FFI og Tækniháskólinn í Þrándheimi

Norski herinn hefur komist að því að á botni Mjøsa-vatnsins í Innlandet-fylki, stærsta stöðuvatns Noregs, liggur mun meira af áratuga gömlum skotfærum en talið hefur verið, líklega mörg hundruð tonn í stað hundrað til tvö hundruð.

Það er rannsóknarstofnun hersins, Forsvarets forskningsinstitutt, FFI, sem gert hefur þessa uppgötvun en árabilið 1940 til 1970 var Mjøsa notað sem eins konar ruslakista fyrir skotfæri sem herinn þurfti að farga og ekki máttu hafna í röngum höndum.

Stýriuggar Sidewinder-stýriflaugar, eins helsta vopns F-16 og fleiri orrustuþota, á …
Stýriuggar Sidewinder-stýriflaugar, eins helsta vopns F-16 og fleiri orrustuþota, á vatnsbotninum. Ljósmynd/Tækniháskólinn í Þrándheimi

„Við höfum heimildir sem segja okkur að í vatnið hafi verið varpað allt að 30 tonnum á dag af skotfærum og sú umferð hafi staðið árum saman,“ segir Arnt Johnsen, yfirrannsakandi hjá FFI, í fréttatilkynningu um skotfæratölfræðina.

Stýriflaugar í vatnið eftir prófanir

Meðal annars prófaði Skotfæraverksmiðjan í Raufoss, Raufoss Ammunisjonsfabrikk, árum saman Sidewinder-stýriflaugar sem þar voru framleiddar og var þeim þá skotið frá Fjellhaug, skammt frá vatninu, og tilraunaskotunum hagað þannig að flaugarnar féllu í vatnið er flugi þeirra lauk. Sukku þær svo niður á þrjú til fjögur hundruð metra dýpi og hvíla þar.

Verra þykir þó, þegar litið er til þessa gríðarlega magns skotfæra í vatninu, að um 100.000 íbúa byggð fær drykkjarvatn sitt þaðan og frá skotfærunum getur hvort tveggja kvikasilfur, blý og kopar borist með vatninu.

Hluti stöðuvatnsins Mjøsa, þess stærsta í Noregi. Vatnið er 369 …
Hluti stöðuvatnsins Mjøsa, þess stærsta í Noregi. Vatnið er 369 ferkílómetrar að flatarmáli og dýpst 449 metrar en meðaldýpt þess er 153 metrar. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kallerna

Johnsen kveður skotfærin þó brotna mjög hægt niður í vatninu og ráðlegra sé að fylgjast vel með hugsanlegri mengun frekar en að hefja hreinsunarstarf og hreyfa við sprengikúlum og annarri eldgamalli vopnaframleiðslu sem þá gæti orðið fyrir hnjaski og farið að gefa frá sér óæskileg efni.

Ætlunin er, að ráði norska umhverfisráðuneytisins, að kortleggja útbreiðslu skotfæranna á botni Mjøsa og í kjölfarið gefa út skýrslu um málið sem FFI hefur veg og vanda af og á að líta dagsins ljós á haustdögum.

NRK

NRKII (viðtal við Bjørn Karlstad sem vann við að henda skotfærum í vatnið)

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert