Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur ráðist á nýjan leik gegn hinsegin fólki í landinu í tilraun til að krækja sér í atkvæði frá íhaldssömum kjósendum sínum í komandi forsetakosningum 14. maí.
Erdogan hefur verið í stífri kosningaherferð síðan hann steig upp úr þriggja daga veikindum í síðustu viku.
Skoðanakannanir sýna að hinn 69 ára Erdogan stendur jafnfætis vinstri leiðtoganum Kemal Kilicdaroglu og er því búist við spennandi kosningum um miðjan mánuðinn.
Erfitt efnahagsástand í Tyrklandi og óánægja með viðbrögð ríkisstjórnarinnar við jarðskjálftanum í febrúar, sem varð yfir 50 þúsund manns að bana í suðausturhluta landsins, hefur gert Erdogan erfitt fyrir í kosningabaráttunni.
Til að bregðast við því hefur hann gagnrýnt Vesturlönd og stuðning stjórnarandstöðunnar við frjálslynd mál á borð við málefni hinsegin fólks og réttindi kvenna.
„Við erum andsnúin LGBT-samfélaginu,” sagði Erdogan á kosningafundi í borginni Giresun. „Okkur finnst fjölskyldan vera heilög. Sterk fjölskylda þýðir það sama og sterk þjóð. Það skiptir engu máli hvað þau gera, guð nægir okkur.”
Ummæli Erdogans komu degi eftir að dómstóll í landinu dæmdi eina af stærstu poppstjörnum Tyrklands í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að grínast á sviði um trúarlega skóla.