Segir Meloni ekki ráða við verkefnið

Darmanin segir að Meloni ráði ekki við flóttamannavandann.
Darmanin segir að Meloni ráði ekki við flóttamannavandann. Samsett mynd/AFP

Innanríkisráðherra Frakklands segir að Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, geti ekki leyst þann flóttamannavanda sem ítalska þjóðin standi frammi fyrir. 

Ummæli Gerland Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, eru sögð auka á spennuna í samskiptum Frakka og Ítala. 

Darmanin sagði í útvarpsviðtali í París að Ítalía stæði frammi fyrir mjög alvarlegum flóttamannavanda. Þá sagði hann margt vera svipað með Meloni og Marine Le Pen, sem er leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi sem er lengst til hægri á hinum pólitíska ás. 

Franski innanríkisráðherrann sagði í viðtalinu að Meloni réði ekki við þetta verkefni. 

Darmanin var spurður út í komur flóttamanna í suðausturhluta Frakklands, sem á landamæri að Ítalíu. Hann sagði að það væri vaxandi straumur flóttafólks á svæðinu og tók sérstaklega fram að börn væru þar í miklum mæli. 

Mikil spenna

Darmanin lét ummælin falla sama dag og Antonio Tajani, utanríkisráðherra Ítalíu, kom í opinbera heimsókn til Parísar, þar sem hann á fund með Catherine Colonna, utanríkisráðherra Frakklands. 

Ríkisstjórn Frakklands, sem er skipuð flokkum nær miðju, hefur á undanförnum árum ítrekað lent uppi á kant við ríkisstjórnir Ítalíu hvað varðar flóttamannamál. 

Spennan jókst töluvert í samskiptum ríkjanna í nóvember þegar Meloni neitaði að leyfa skipi, sem sigldi á vegum mannúðarsamstaka og var með 230 flóttamenn um borð, að leggjast að bryggju á Ítalíu.  

Skipið fékk á endanum að koma til Frakklands. Frönsk stjórnvöld fordæmdu aðgerðir Ítala og sögðu þetta vera „óviðunandi hegðun“. Þá hættu Frakkar við að taka á móti 3.500 flóttamönnum frá Ítalíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert