Dauði bandarísks fjallgöngumanns á Everest, sem var sá fjórði til að látast á fjallinu á þessu tímabili, hefur varpað ljósi á hættuna sem fylgir því að klífa þennan hæsta tind veraldar.
Everest, sem er þekkt sem Sagarmatha í Nepal og Chomolungma í Tíbet, hefur verið fjallgöngumönnum hugleikið allar götur síðan það var nefnt hæsta fjalls heims fyrir ofan sjávarmál.
Fyrsti leiðangurinn á Everest var farinn árið 1921, eða fyrir rúmum 100 árum, af Bretum. Það var þó ekki fyrr en árið 1953 sem Nepalinn Tenzing Norgay og Ný-Sjálendingurinn Edmund Hilary komust loksins upp á tindinn fyrstir manna.
Flestir þeirra rúmlega sex þúsund manna sem hafa klifið Everest frá upphafi hafa gert það síðustu tvo áratugi.
„Vegna þess að það er þarna,” svaraði breski fjallgöngumaðurinn George Mallory eftirminnilega þegar hann var spurður árið 1923 hvers vegna hann vildi klífa fjallið Everest.
Rannsókn sem var birt árið 2019 sýndi fram á að jöklar Himalaja-fjallgarðsins bráðna tvöfalt hraðar en á síðustu öld. Þessu fylgir aukin hætta fyrir fjallgöngumenn sem vilja klífa Everest.
Búist er við að metfjöldi fjallgöngumanna, þar á meðal nepalskir leiðsögumenn, reyni að klífa Everest á næstu vikum, eða næstum því eitt þúsund talsins.