Breska lögreglan handtók í morgun nokkra af leiðtogum samtakanna Lýðveldið sem eru andsnúin breska konungsveldinu.
Þeir voru handteknir er þeir voru að undirbúa mótmæli þar sem skrúðganga verður farin frá Buckinghamhöll til Westminster Abbey í tilefni af krýningu Karls III. Bretakonungs.
„Þeir handtóku sex af skipuleggjendum okkar og lögðu hald á mörg hundruð skilti. Þeir vilja ekki segja okkur hvers vegna þeir handtóku þá eða hvert var farið með þá,” sagði aðgerðasinni úr röðum Lýðveldisins [e.Republic] á Trafalgar-torgi í London.
Einn þeirra sem voru handteknir var Graham Smith, framkvæmdastjóri samtakanna. Á einu skiltanna sem samtökin ætluðu að veifa stóð „Ekki okkar konungur”.