Lögmenn blaðamannsins E. Jean Carroll og fyrrverandi forsetans Donald Trump flytja lokaávörp sín í New York í dag. Carroll segir Trump hafa nauðgað sér í mátunarklefa í verslun Bergdorf Goodman árið 1996. Búist er við því að kviðdómarar hefji umræður um málið sín á milli á morgun, þriðjudag.
Málið snýst ekki einungis um meinta nauðgun heldur sakaði Carroll Trump um meiðyrði þegar hann neitaði því opinberlega að hann hefði nauðgað henni.
Trump neitaði ekki aðeins að hafa framkvæmt verknaðinn heldur sagði hann Carroll ekki vera sína týpu og gaf í skyn að hún væri einungis að ásaka hann um þetta til þess að bók hennar myndi seljast betur.
Ásakanirnar komu fyrst fram árið 2019 en ný lög voru síðan samþykkt í New York sem gáfu þolendum kynferðisofbeldis árs langan glugga til þess að kæra gerendur sína fyrir verknaðinn. Vegna þessarar breytingar gat Carroll kært Trump fyrir brot sem á að hafa verið framið fyrir meira en tuttugu árum. NPR greinir frá þessu.
Réttarhöldin hafa staðið yfir í um viku en CNN greinir frá því að lögmenn Carroll hafi telft fram ellefu vitnum, þar á meðal Carroll sjálfri. Trump hafi hvorki mætt sjálfur né hafi lögmaður hans teflt fram vitnum máli sínu til stuðnings.
Þess má geta að dómarinn í málinu, Lewis Kaplan, gaf Trump tækifæri til þess að skipta um skoðun varðandi það að bera vitni þar til í gær. Lögmenn málsaðilanna tveggja luku almennum málflutningi á fimmtudag.