Tveir karlmenn sem voru fundnir sekir um að brenna Kóraninn, helgirit múslima, og móðga Múhameð spámann voru teknir af lífi í Íran í morgun.
Þeir Sadrollah Fazeli Zare og Yussef Mehrdad voru hengdir.
Annar þeirra var sagður hafa fyrir tveimur árum viðurkennt fyrir dómstólum að hafa framið þessi afbrot, sagði á fréttasíðunni Mizan Online.
Mennirnir voru einnig sakaðir um að hafa hvatt fólk á samfélagsmiðlum til að trúa ekki á guð.
Írönsk yfirvöld taka fleiri af lífi á hverju ári en nokkur önnur þjóð, ef Kína er undanskilið, að sögn samtakanna Amnesty International.
75 fleiri voru hengdir í Íran í fyrra en árið á undan, að sögn tveggja annarra mannréttindasamtaka. Að minnsta kosti 582 voru teknir af lífi í Íran í fyrra, sem er það mesta síðan 2015, sögðu samtökin Iran Human Rights og Together Against the Death Penalty í sameiginlegri skýrslu.