Saksóknari ákærir þingmann

George Santos, þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.
George Santos, þingmaður fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. AFP

Ríkissaksóknari Bandaríkjanna hefur lagt fram ákæru á hendur George Santos, fulltrúadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins í New York-ríki. Ekki er víst hvers eðlis ákæran er. Frá þessu greina bandarískir miðlar, þar á meðal CNN.

Alríkislögreglan og dómsmálaráðuneytið hafa að undanförnu rannsakað ásakanir um falskar staðhæfingar sem koma fram í skýrslum frá Santos um fjármál kosningaherferðar sinnar ásamt öðrum fullyrðingum sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Búist er við því að Santos fari fyrir dóm á morgun í New York.

Enginn vill tjá sig

Lögmaður Santos hefur ekki viljað tjá sig um málið. Talsmenn saksóknaraembættisins í Brooklyn, dómsmálaráðuneytisins og alríkislögreglunnar hafa heldur ekki viljað tjá sig um málið. Santos hefur verið til rannsóknar í mörgum umdæmum og hjá siðanefnd þingsins.

Hópur Demókrata hefur að undanförnu skorað á Santos að segja af sér vegna ýmissa ásakana. Nokkrir Repúblikanar í New York hafa jafnvel slegist í hópinn.

Á þeim tíma sem Santos hefur gegnt embætti hefur hann verið sakaður um að brjóta lög um kosningasjóði, brjóta gegn hagsmunalögum, skipuleggja kreditkortasvindl og ljúga um fyrri vinnustaði sína og skóla, auk þess að stela fé sem ætlað var fyrir deyjandi hund fyrrum hermanns.

Santos hefur hingað til viðurkennt að hafa sett fram villandi fullyrðingar um menntun sína og fjárhag en neitar alvarlegri ásökunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert