Segir rússneska hermenn hafa lagt á flótta

Jev­gení Prigó­sjín, yf­ir­maður Wagner-málaliðanna frá Rússlandi, er ekki sáttur við …
Jev­gení Prigó­sjín, yf­ir­maður Wagner-málaliðanna frá Rússlandi, er ekki sáttur við rússneska herinn. AFP

Jev­gení Prigó­sjín, yf­ir­maður Wagner-málaliðanna frá Rússlandi, sakar rússneskar hersveitir um að hafa flúið stöðvar í námunda við úkraínsku borgina Bakmút. Prigósjín segir að rússnesk yfirvöld séu óhæf til að verja heimalandið. 

Undanfarið hefur Prigósjín, sem hefur vakið mikla athygli í tengslum við hernaðaraðgerðir Rússa í Úkraínu, birt nokkur myndskeið þar sem hann gagnrýnir hernaðargetu og leiðtogahæfni Rússa í stríðinu harðlega.

Hótar að draga herlið sitt frá Bakmút

„Í dag flúði ein af hersveitum varnarmálaráðuneytisins frá öðrum vængnum  [...] sem skildi framlínuna eftir berskjaldaða,“ sagði hann.

Prigósjín hefur hótað að draga herlið sitt frá Bakmút á morgun fái hann ekki skotfærasendingu, sem hermennina vantar bráðnauðsynlega.

Wagner-hópurinn hefur leitt aðgerðir Rússa í átökunum um yfirráð borgarinnar. 

„Heimskir“ herforingjar

Prigósjín segir rússneska hermenn hafa flúið sökum „heimsku“ yfirmanna rússneska hersins, sem hann segir að hafi gefið þeim „glæpsamleg fyrirmæli“. 

„Hermenn eiga ekki að deyja sökum heimskulegra ákvarðana yfirmanna,“ sagði hann. 

Prigósjín birti myndskeiðið í dag á svokölluðum sigurdegi Rússa, þar sem rússnesk stjórnvöld fagna sigri Sovétmanna á hersveitum nasista í seinni heimsstyrjöldinni. 

Sakaðir um að reyna að blekkja Pútín

Þá sagði hann að æðstu hershöfðingjar hersins væru að reyna að blekkja Vladimír Pútín Rússlandsforseta varðandi framgang stríðsins í Úkraínu. Prigósjín segir að rússneska þjóðin muni bregðast reið við því að stríðið sé að tapast. 

Hann setur einnig spurningarmerki við getu rússneska hersins til að verja heimalandið, en hann segir að Úkraínumönnum hafi tekist að gera árásir á landamærahéruð Rússlands án þess að Rússum tækist að koma vörnum við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert