Krufningar á líkum liðsmanna sértrúarsafnaðar í Kenía hafa leitt í ljós að líffæri vantaði í nokkur líkanna. Grunur er um að líffærin hafi verið seld.
Rúmlega tvær vikur eru síðan lögregla hóf leit á líkum liðsmanna Good News International Church sértrúarsafnaðarins í Shakahola-skógi nærri borginni Malindi. Alls hafa 112 lík fundist og hófst leit lögreglu að líkum aftur í dag, en henni var frestað þar sem líkhús nærri voru orðin yfirfull.
Paul Nthenge Mackenzie, leiðtogi Good News International Church, á að hafa tjáð fylgjendum sínum að þeir myndu hitta Jesú ef þeir sveltu sig. Krufningar leiddu í ljós að nokkrir liðsmenn, þar á meðal börn, voru kyrktir eða barðir til dauða.
„Krufningarskýrslur hafa leitt í ljós skort á líffærum í nokkrum líkum fórnarlambanna,“ sagði Martin Munene yfirlögreglustjóri, í yfirlýsingu sem var lögð fyrir dómstól í höfuðborginni Naíróbí.
„Talið er að vel skipulögð líffæraviðskipti hafi farið fram,“ sagði í yfirlýsingu Munenes.
Þá sagði Munene að sjónvarpsprédikarinn Ezekiel Odero, sem var handtekinn í apríl en látinn laus gegn tryggingu á fimmtudag, hafi fengið umfangsmiklar peningaupphæðir frá fylgjendum Mackenzie sem seldu eigur sínar samkvæmt fyrirmælum Mackenzie.
Dómstólinn í Naíróbi skipaði yfirvöldum að frysta fleiri en 20 bankareikninga í eigu Oderos í 30 daga.
Mackenzie gaf sig sjálfur fram 14. apríl og hafa saksóknarar óskað eftir að hann verði í haldi í 90 daga á meðan rannsókn stendur yfir. Dómarinn Yusuf Shikanda mun greina frá ákvörðun sinni á morgun.
Mackenzie starfaði sem leigubílstjóri áður en hann stofnaði Good News International Church árið 2003. Hann á sjö börn.