Þingmaðurinn ákærður í þrettán liðum

George Santos á þinginu í byrjun árs. Hann sætir nú …
George Santos á þinginu í byrjun árs. Hann sætir nú ákæru fyrir fjölda meintra brota en meðal þess sem komist hefur í hámæli af svikastarfsemi hans er að stinga fé undan úr sjóði sem safnað var handa dauðvona hundi fyrrverandi hermanns. AFP/Olivier Douliery

Ákæran á hendur George Santos, fulltrúadeildarþingmanni Repúblikanaflokksins í New York-ríki í Bandaríkjunum, er fyrir fjársvik, peningaþvætti, undanskot fjár úr opinberum sjóðum og upplognar fullyrðingar við þingið.

Er ákæran alls í þrettán liðum og hefur lögregla handtekið Santos sem bíður þess að koma fyrir dómara og hlýða á ákæruatriðin.

Hefur þessi hálffertugi þingmaður ekki verið óumdeildur síðan hann settist á þing og meðal annars setið undir fjölda áskorana um að segja af sér þingmennsku, hvort tveggja úr röðum Demókrataflokksins og eigin flokksmanna.

„Svikari út í gegn“

Undir lok árs í fyrra komst það í hámæli að Santos hefði logið til um menntun sína og starfsferil og um svipað leyti tók að bera á háværum orðrómi um greiðslukortasvik auk brota gegn lögum um kosningasjóði og að stinga undan fé sem safnað hafði verið handa dauðvona hundi fyrrverandi hermanns.

Játaði hann að hafa sagt rangt til um menntunina og störf sín en hefur fram til þessa vísað ásökunum um lögbrot á bug. Gagnrýnendur hans hafa hins vegar kallað hann „svikara út í gegn“.

Lögmaður þingmannsins hefur ekki enn sem komið er svarað fyrirspurnum fjölmiðla um málefni skjólstæðings síns.

Sky News

CNN

Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert