Auðkýfingurinn Elon Musk hefur tilkynnt að hann muni stíga til hliðar sem forstjóri Twitter og að nýr einstaklingur taki brátt við. Musk nafngreindi ekki nýja forstjórann, en sagði að „hún“ myndi hefja störf eftir sex vikur.
Excited to announce that I’ve hired a new CEO for X/Twitter. She will be starting in ~6 weeks!
— Elon Musk (@elonmusk) May 11, 2023
My role will transition to being exec chair & CTO, overseeing product, software & sysops.
Sjálfur mun hann taka við sem stjórnaformaður og yfirmaður tæknimála, þegar hann stígur til hliðar sem forstjóri. Musk tilkynnti í nóvember á síðasta ári að hann hygðist minnka hlutverk sitt innan Twitter og hefja leit að nýjum forstjóra.
Musk er eins og mörgum er kunnugt einnig forstjóri bílaframleiðandans Tesla og geimtæknifyrirtækisins SpaceX. Á Íslandi er Musk þó einnig frægur fyrir erjur sínar við frumkvöðulinn og athafnamanninn Harald Inga Þorleifsson, eða Halla eins og hann er betur þekktur.
Musk hefur almennt verið umdeildur sem forstjóri Twitter síðan hann keypti miðilinn í fyrra, en hann tilkynnti meðal annars áskriftarþjónustu á stimpilinn bláa í því yfirskyni að það ýtti undir lýðræðislegar umræður.
Þjónustan hefur hins vegar verið gagnrýnd fyrir að hafa gagnstæð áhrif á lýðræðislega umræður, þar sem notendur geti keypt sér forgang á miðlinum og ýtt undir upplýsingaóreiðu.