Sakar Suður-Afríku um að gefa Rússum vopn

Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku. AFP

Reuben Brigety, sendiherra Bandaríkjanna í Suður-Afríku, sakar yfirvöld þar í landi um að sjá Rússum fyrir vopnum en Suður-Afríka hefur lýst yfir hlutleysi í átökum Rússa og Úkraínu.

Breska ríkisútvarpið segir frá því að Brigety haldi því fram að vopnum og skotfærum hafi verið komið fyrir í rússnesku flutningaskipi sem hafði viðkomu í Höfðaborg í desember.

Talsmenn Cyrils Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, segja það vera vonbrigði að slíkar ásakanir séu settar fram og að engar sannanir séu til staðar sem styðji ásakanir Brigetys.

Birgety sagði á blaðamannafundi í dag í Pretoríu, einni af þremur höfuðborgum landsins, að Bandaríkjamenn hefðu áhyggjur af meintu hlutleysi landsins. Hann sagðist vera sannfærður um það að vopnum hafi verið komið fyrir um borð í flutningaskipi sem var við höfnina frá 6. til 8. desember og að skipið væri á leið til Rússlands.

„Það að gefa Rússum vopn er ákaflega alvarlegt og við teljum að þetta mál sé enn ekki leyst,“ segir Brigety.

Koma skipsins vakti á sínum tíma mikla athygli meðal stjórnmálamanna í landinu. Í kjölfar ásakananna tilkynnti ríkisstjórn Suður-Afríku að málið yrði rannsakað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert