Jevgení Prígosjín, yfirmaður rússnesku Wagner-málaliðasveitarinnar, ásakar rússnesk hermálayfirvöld um lygar, í myndskeiði sem hann hefur dreift um samfélagsmiðla sína. Kveður hann yfirvöld draga upp sakleysislegri mynd af stöðu mála í úkraínsku borginni Bakhmút en efni séu til en þar hafa harðir bardagar geisað vikum saman.
„Tilraunir varnarmálaráðuneytisins til að sykurhúða ástandið í upplýsingagjöf sinni [...] er leiðandi og mun stefna Rússlandi í voða á alþjóðavettvangi,“ segir Prígosjín.
Enn fremur kveður hann rússneska hermenn á flótta frá Bakhmút. „Liðsafli varnarmálaráðuneytisins forðaði sér einfaldlega af varnarstöðvum sínum,“ segir hann og bætir því við að bardagamáttur rússneska hersins í Bakhmút þverri nú ört.