Selenskí til Þýskalands rétt fyrir fundinn í Hörpu

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu.
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu. AFP/Sergei Supinsky

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, mun ferðast til Berlínar, höfuðborgar Þýskalands, á morgun. Þetta herma heimildir AFP-fréttastofunnar. Hann er nú staddur í Róm þar sem hann mun funda með forseta Ítalíu, forsætisráðherranum og páfanum.

Á þriðjudaginn og miðvikudaginn í næstu viku verður leiðtogafundur Evrópuráðsins haldinn í Hörpu í Reykjavík. Um 40 þjóðarleiðtogar hafa boðað komu sína en enginn formlegur listi liggur þó fyrir og má segja að mikil leynd ríki yfir hverjir munu mæta.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, hafa þó opinberlega staðfest þátttöku sína á fundinum.

Ekki er vitað hvort að Selenskí muni gera sér ferð til Reykjavíkur í næstu viku en ljóst er að hann verður staddur í Þýskalandi skömmu áður en fundurinn hefst. Hefur hann verið á miklum faraldsfæti undanfarna daga.

Var hann meðal annars óvæntur gestur leiðtogafundar Norðurlandanna í Helsinki fyrr í mánuðinum. Þá var hann skömmu síðar mættur í heimsókn hjá Alþjóðasaka­mála­dóm­stóln­um í Haag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert