„Stórmerkilegar kosningar“ á morgun

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er nú stödd í Istanbúl …
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er nú stödd í Istanbúl í Tyrklandi. Samsett mynd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, er nú stödd í Istanbúl í Tyrklandi á vegum Evrópuráðsþingsins til þess að sinna kosningareftirliti. Á morgun fara fram sögulegar þing- og forsetakosningar í landinu.

Mjótt er á mun­um milli sitj­andi for­seta, Recep Tayyip Er­dog­an, og mót­fram­bjóðanda hans Kemal Kilicd­aroglu. Erdogan er 69 ára gamall og tólfti forseti ríkisins. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2014.  

Þórhildur Sunna flaug til Ankara, höfuðborgar Tyrklands, í gær þar sem hún sat stöðufundi en nú er hún komin til Istanbúl þar sem hún mun sinna kosningaeftirlitinu á morgun. Kjörstaðir opna klukkan átta í fyrramálið. 

Að sögn Þórhildar Sunnu er rík hefð fyrir kosningum í …
Að sögn Þórhildar Sunnu er rík hefð fyrir kosningum í Tyrklandi. AFP/Adem Altan

Hún er ein af 350 eftirlitsaðilum, sem eru flestir þingmenn, sem munu fylgjast með kjörstöðum víðsvegar um landið. Þar af eru 40 í sendinefnd Evrópuráðsþingsins. 

„Sendinefndin er óvenju stór og lýsandi fyrir þennan alþjóðlega áhuga sem er á þessum kosningum að þessu sinni.“

Sinnir skammtímaeftirliti

Þórhildur Sunna verður mætt á kjörstaði fyrir opnun þeirra í fyrramálið. Starfið felst síðan í að fylgjast með kjörstöðum á fyrirfram ákveðnu svæði í teymum og fylla út ákveðin eyðublöð. 

„Svo er þessu öllu safnað saman og greint útfrá tölfræði samantektum upp á hversu öruggar og sanngjarnar kosningarnar voru.“

Þórhildur Sunna sinnir skammtímaeftirliti en síðan eru þeir sem sinna langtímaeftirliti með kosningunum. Þeir fylgjast með fjölmiðlaumfjöllun, kosningabaráttunni, aðgengi kvenna að stjórnmálum, málfrelsi og fleiru í lengri tíma, ásamt því að meta hversu lýðræðislegar kosningarnar eru. 

Auglýsingar frambjóðenda má sjá víða. Hér má sjá skilti Recep …
Auglýsingar frambjóðenda má sjá víða. Hér má sjá skilti Recep Tayyip Er­dog­an. AFP/Yasin Akgul

Rík kosningahefð 

Þórhildur Sunna má ekki tjá sig um hvað henni finnst um kosningarnar en segir þær vera „sögulegar hvernig sem á það sé litið“. 

„Það er mjög rík hefð fyrir kosningum í Tyrklandi og mjög góð kosningaþátttaka. Það er ekki að búast við öðru en heldur en að það verði eins á morgun,“ segir hún og bætir við að auglýsingar frambjóðenda megi sjá víða og „alveg augljóslega kosningar í vændum.“

Í ár eru 100 ár síðan Tyrkland var fullvalda ríki. „Ég held að það séu allir sammála um það að þetta séu stórmerkilegar kosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert