Hátt settur yfirmaður í úkraínska hernum segir sveitir hersins í sókn á fremstu víglínu, nærri bænum Bakmút. Stærri vopnaframlög vestrænna ríkja blása Úkraínumönnum von í brjóst um að Rússar muni brátt gefa eftir.
„Hermennirnir okkar eru að færa sig framar og andstæðingurinn er að missa bæði mannafla og hergögn,“ segir Oleksandr Sirskíj, yfirmaður landgöngusveita.
Fyrr í dag greindi varnarmálaráðuneyti Þýskalands frá því að það myndi senda Úkraínumönnum vopn fyrir 2,7 milljarða evra sem er stærsta einstaka framlag ríkisins til Úkraínu frá upphafi innrásar Rússa.
Úkraínumenn sögðu stærri framlög af þessu tagi sanna að Rússar myndu senn þurfa játa ósigur í stríðinu.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur greint frá því opinberlega að ráðuneyti hans sé að skoða umfang næsta vopnaframlags til Úkraínumanna.