Hvorki Erdogan né Kilicdaroglu náðu kjöri

Fólk hópaðist saman úti á götum Tyrklands og sýndi í …
Fólk hópaðist saman úti á götum Tyrklands og sýndi í verki stuðning sinn. AFP

Recep Tayyup Erdogan Tyrklandsforseti var hvorki endurkjörinn né felldur í forsetakosningum helgarinnar. Hvorki hann né atkvæðamesti mótframbjóðandi hans, Kemal Kilicdaroglu, náðu tilskildu lágmarki, 50 prósent atkvæða, og munu því fara fram nýjar kosningar þann 28. maí milli þeirra tveggja. 

Upplýsingaóreiða var einkennandi meðan heimurinn fylgdist með talningunni. Tveir tyrkneskir miðlar skiptust þar á að greina frá nýjum tölum, en virtust sjaldnast á sama máli.

Ríkismiðillinn Anadolu, hefur það orð á sér að vera hliðhollur Erdogan, og þegar búið var að telja 90,6 prósent atkvæða, birtust þar fréttir þess efnis að Erdogan hefði þar af hlotið 49,86 prósent atkvæða, en Kilicdaroglu fengið 44,38 prósent atkvæða í sinn hlut. Einkarekinn miðill, sem hefur þótt hliðhollur Kilicdaroglu, birti á sama tíma fréttir þess efnis að atkvæðin skiptust þannig að Kilicdaroglu hefði hlotið 49 prósent talinna atkvæða, en Erdogan einungis 45 prósent.

Ásakanir um að villa um fyrir almenningi gengu á báða bóga en kjörstjórnin kaus að svara ekki spurningum blaðamanna um það hvor frambjóðendanna hefði rétt fyrir sér.

Heimurinn fylgdist með kosningunum.
Heimurinn fylgdist með kosningunum. AFP

Árangurinn eftirtektaverður

Hvort sem rétt reynist var ljóst að á þessum tímapunkti náði hvorugur frambjóðendanna því lágmarki sem til þarf svo hann gæti talist sigurvegari kosninganna. Til þess að ná kjöri til forseta þarf viðkomandi að hljóta að lágmarki 50 prósent atkvæða, ella þarf að fara fram önnur kosning milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði.

Þar sem hvorugur frambjóðandanna náði lágmarkinu verður ekki skorið endanlega úr um það hvort valdatíð Erdogan ljúki, fyrr en seinni kosningin fer fram þann 28. maí.

Stuðningsmenn Kilicdaroglu voru vongóðir um að hann myndi komast upp fyrir lágmarkið og yrði kynntur sem nýr forseti að loknum kosningunum, enda bentu niðurstöður skoðanakannana til þess. Þó það hafi ekki tekist þykir árangur Kilicdaroglu engu að síður eftirtektaverður, enda hefur engum tekist að vega svo að fylgi Erdogan áður. 

Maður fylgist með kosningunum.
Maður fylgist með kosningunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert