Óttast að fellibylurinn gangi yfir flóttamannabúðir

Ung stúlka horfir á ljósmyndara AFP er fjölskylda hennar yfirgefur …
Ung stúlka horfir á ljósmyndara AFP er fjölskylda hennar yfirgefur heimili sitt í Mjanmar. AFP/Sai Aung Main

Fellibylurinn Mocha er farinn að ganga á land við landamæri Bangladess og Mjanmar. Tré hafa rifnað upp með rótum og úrhellisrigning er yfir svæði þar sem hundruð þúsunda Rohingya-flóttamanna dvelja við slæmar aðstæður.

Fellibylurinn er talinn afar hættulegur og er einn sá kröftugasti sem gengið hefur yfir Bangladess í tvo áratugi. Hefur vindhraði mælst allt að 195 kílómetrar á klukkustund. 

Hátt í fimm hundruð þúsund íbúar þurfa að yfirgefa heimili sín er Mocha nálgast byggð.

Frá Kyauktaw í Mjanmar.
Frá Kyauktaw í Mjanmar. AFP/Sai Aung Main

Rauðir viðvörunarfánar

Áhyggjur eru uppi um að fellibylurinn muni ganga yfir svæði þar sem einar stærstu flóttamannabúðir heims, Cox Bazar, eru staðsettar. Þar dvelja hátt í milljón Rohingya-flóttamenn.

Rigning er þegar farin að falla á búðirnar og hafa rauðir viðvörunarfánar verið dregnir upp.

Búið er að loka starfsemi á flugvöllum á svæðinu og hafa fiskveiðimenn verið beðnir um að halda sig heima á meðan fellibylurinn gengur yfir.

Þá hafa yfir 1.500 bráðabirgðaskýli verið sett upp fyrir fólk sem þarf að yfirgefa heimili sín.

„Húsin okkar í flóttamannabúðunum, sem eru gerð úr bambus og ábreiðum, þau gættu fallið í golu,“ sagði Mohammad Sayed, sem dvelur í Nayapara flóttamannabúðunum í Bangladess.

„Skólarnir, sem eru skilgreindir sem skýli, eru ekki sterkbyggðir og geta ekki staðið af sér kröftuga vinda fellibylsins. Við erum hrædd.“

Íbúar Kyauktaw í Mjanmar leita skjóls fyrir fellibylnum.
Íbúar Kyauktaw í Mjanmar leita skjóls fyrir fellibylnum. AFP/Sai Aung Main
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert