„Við leiðum“ skrifar Kemal Kilicdaroglu, mótframbjóðandi Recep Tayyip Erdogan, í tísti sem hann birti eftir fyrstu tölur.
Öndeyiz.
— Kemal Kılıçdaroğlu (@kilicdarogluk) May 14, 2023
Munurinn milli Erdogan og Kilicdaroglu minnkar eftir því sem á líður, en nú þegar 41,55 prósent atkvæða hafa verið talin, er Erdogan þó enn leiðandi með 52,55 prósenta fylgi gegn 41,55 prósenta fylgi Kilicdaroglu.
Þessi yfirlýsing Kilicdaroglu virðist því ekki eiga sér beina stoð í þeim tölum sem ríkismiðill Tyrklands hefur birt, en stuðningsmenn Kilicdaroglu hafa varað við því að leggja of sterkan skilning í fyrstu tölur, enda séu þær ekki marktækar þegar svo lítill hluti atkvæða hefur verið talinn.
Talsmaður Repúblikanaflokksins, sem Kilicdaroglu býður sig fram fyrir, segir að sú mynd sem sé að teiknast upp með töldum atkvæðum, sé afar jákvæð fyrir flokkinn og Kilicdaroglu.
Tyrkir gengu til þing- og forsetakosninga um helgina, og þykja þetta sérstaklega merkilegar kosningar í ljósi þess að þær kunna að skera úr um það hver sé framtíð lýðræðis í tyrkneskri stjórnskipan, eða ekki.
Erdogan hefur verið í embætti forseta samfleytt frá árinu 2014. Með hverju kjörtímabilinu hefur hann þokast nær einræðislegum stjórnarháttum. Til að mynda breytti hann stjórnskipan ríkisins á síðasta kjörtímabili á þann veg að framkvæmdarvaldið var fært undir forsetann.