Selenskí hlaut Karlsverðlaunin í ár

Juergen Linden, stjórnarformaður Karlsverðlaunanna, Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, og Sibylle …
Juergen Linden, stjórnarformaður Karlsverðlaunanna, Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, og Sibylle Keupen, borgarstjóri Aachen, V-Þýskalandi. AFP

„Úkraína berst fyrir frelsi og gildum Evrópu“, sögðu leiðtogar ESB fyrr í dag, þegar þeir afhentu Volodimír Selenskí, forseta Úkraínu, Karlsverðlaunin fyrir þjónustu í þágu evrópskrar samstöðu og einingar. Karlsverðlaunin eru friðarverðlaun sem veitt eru árlega í þýsku borginni Aachen. Þau eru veitt fólki sem skarað hefur fram úr í þágu friðar í Evrópu.

„Úkraína er holdgervingur alls þess sem hin evrópska hugmynd stendur fyrir: hugrekkis, sannfæringar, baráttu fyrir gildum og frelsi og skuldbindingu um frið og einingu,“ sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, við verðlaunaafhendinguna.

Úkraína er hluti af evrópsku fjölskyldunni

„Selenskí forseti og íbúar Úkraínu berjast fyrir þeim gildum og þeirri skyldu sem þessi verðlaun fela í sér og með því berjast þeir líka fyrir eigin frelsi okkar og gildum,“ bætti hún við er hún las upp skilaboð frá Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands

Þá sagði Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, Úkraínu hluta af evrópsku fjölskyldunni og stríð Rússa við landið eingöngu hafa styrkt þá staðreynd.

Selenskí mætti í eigin persónu til að taka á móti verðlaununum en þetta var hans fyrsta heimsókn til Þýskalands síðan stríðið við Rússa hófst. 

Sagði Þýskaland sannan bandamann

Selenskí uppskar langt lófaklapp á verðlaunaathöfninni þar sem leiðtogar ESB hétu því einnig að styðja Úkraínu á leið sinni til inngöngu í sambandið. Þá kallaði Selenskí Þýskaland sannan vin og áreiðanlegan bandamann Úkraínu þar sem það berst við að hrekja rússneska innrásarherinn frá sér. Fyrr í dag átti Selenskí sérstakar viðræður við Scholz og Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands. 

Næsti fundur við Macron?

Heimsóknin kom degi eftir að hann hitti ítalska leiðtoga og Frans páfa í Róm en heimildarmenn sögðu AFP að næsti áfangastaður hans væri Frakkland þar sem búast má við að hann eigi fund með Emmanuel Macron, forseta Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert