Hlaut lífstíðardóm í Kína

Vegfarendur á ferð um Viktoríuhöfnina í Hong Kong þar sem …
Vegfarendur á ferð um Viktoríuhöfnina í Hong Kong þar sem John Shing-Wan Leung var síðast til heimilis. AFP/Isaac Lawrence

Dómstóll í Suzhou í Kína hefur dæmt tæplega áttræðan bandarískan ríkisborgara, John Shing-Wan Leung, til ævilangrar fangelsisvistar fyrir njósnir. Var Leung, sem búsettur er í Hong Kong, handtekinn fyrir tveimur árum en dómstóllinn lætur ekki mikið uppi um ákæruatriðin gegn honum.

Var Leung „fundinn sekur um njósnir, dæmdur til lífstíðarfangelsis [og] sviptur öllum stjórnmálalegum réttindum til æviloka“, segir í yfirlýsingu millidómstigs Dómstóls alþýðunnar sem dómstóllinn birtir á samfélagsmiðlinum WeChat.

Óvenjulega þungur dómur fyrir erlendan borgara

Talsmaður bandaríska sendiráðsins í Peking segir sendiráðinu kunnugt um dóminn og slær því föstu að bandaríska utanríkisráðuneytið setji öryggi bandarískra ríkisborgara erlendis ofar öllu. Virðist það þó lítið geta aðhafst.

Óvenjulegt er að erlendir ríkisborgarar hljóti svo þunga dóma í Kína. Ný lög taka þar gildi í júlí sem herða töluvert á lagabókstafnum hvað njósnir snertir. Munu nýju lögin til dæmis banna afhendingu allra gagna sem stjórnvöld meta sem svo að hafi á einhvern hátt með þjóðaröryggi að gera.

Líklegt þykir að dómurinn í máli Leungs verði ekki til að draga úr spennunni milli Kína og Bandaríkjanna en samband ríkjanna batnaði ekki við viðskiptahöft Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, gagnvart Kína árið 2018. Þar með eru ásteytingarsteinarnir ekki tæmandi taldir og má að auki nefna stöðu Taívans, hernaðarumsvif Kínverja á Suður-Kínahafi og meint upptök kórónuveirunnar í Kína.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert