Lofar Selenskí enn fleiri vopnum

Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands hefur lofað Volodimír Selenskí Úkraínuforseta að …
Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands hefur lofað Volodimír Selenskí Úkraínuforseta að Bretland muni færa Úkraínu enn fleiri vopn. AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti lenti í Bretlandi í morgun. Þar fór hann á fund Rishis Sunaks forsætisráðherra Bretlands, sem hefur lofað að útvega Úkraínumönnum mörg hundruð fleiri dróna. 

Selenskí hefur verið á faraldsfæti undanfarið en hann kom til Bretlands beinustu leið frá Frakklandi þar sem hann ræddi við Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

„Bretland er forystuland hvað varðar það að auka getu okkar [til hernaðar] á landi og í lofti,“ skrifar Selenskí á Twitter rétt fyrir fundinn. „Þessi samvinna mun halda áfram í dag. Ég mun hitta vin minn Rishi. Við munum eiga í raunverulegum samningaviðræðum.“

Sunak heilsaði Selenskí með faðmlagi við komu hans í dag. Hann greinir frá því á Twitter þar sem hann skrifar: „Velkominn aftur.“

Mega ekki bregðast Úkraínu

„Þetta er þýðingarmikið augnablik fyrir mótspyrnu Úkraínumanna gegn hræðilegu innrásarstríði sem þeir hvorki völdu né ollu,“ segir Sunak í yfirlýsingu. „Við megum ekki bregðast þeim.“

Sunak segir að þó að forvígi stríðsins séu í Úkraínu teygi víglínurnar sig út um allan heim. Það séu „hagsmunir okkar allra að sjá til þess að Úkraína sigri og villimennska Pútíns verði ekki verðlaunuð“.

Í yfirlýsingu frá breskum stjórnvöldum segir að Sunak muni staðfesta áframhaldandi útvegun Breta á loftvarnarskeytum og drónum, sem eigi að berast til Úkraínu á næstu mánuðum.

Fyrir helgi barst Úkraínumönnum sending af svokölluðum Storm Shadow-loftskeytum. Bretland er það land sem hefur gefið næstmest af skotfærum til Úkraínumanna en Bandaríkjamenn mest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert