Blikur eru á lofti í Hollywood vegna verkfalls handritshöfunda sem hófst í byrjun mánaðarins eftir að upp úr kjaraviðræðum slitnaði. Alls hafa um 11.500 sjónvarps- og handritshöfundar lagt niður störf með tilheyrandi áhrifum á framleiðslu í draumaverksmiðjunni. Þegar hafa ýmsir spjallþættir verið settir á ís og ef verkfallið dregst á langinn munu sápuóperur og fleiri þættir hljóta sömu örlög. Handritshöfundar krefjast betri kjara og aukins atvinnuöryggis. Þeir segja að ástandið hafi verið slæmt fyrir en tilkoma gervigreindar ógni enn frekar stöðu þeirra.
Síðasta verkfall handritshöfunda reyndist kvikmyndabransanum dýrt. Það var árin 2007-2008 og stóð í 100 daga. Handritshöfundar segja að á sama tíma og mikill uppgangur hafi verið í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum á síðustu árum hafi þeirra hlutur af kökunni minnkað umtalsvert. Tölur þeirra benda til þess að laun hafi lækkað um 23% síðasta áratuginn þegar tekið er tillit til verðlagsþróunar. Sífellt fleiri höfundar fái einungis lágmarkstaxta. Á sama tíma hafi hagnaður kvikmyndavera aukist um 39% og yfirmenn maki krókinn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.