„Þetta var svakaleg árás,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði, í samtali við mbl.is en í nótt gerðu Rússar umfangsmikla loftárás á höfuðborgina. Að minnsta kosti þrír særðust í árásinni sem samanstóð bæði af eldflaugum og drónum.
Hann segir að Rússar hafi notað sex Kinzhal-flugskeyti, sem eru háþróuðustu flugskeyti rússneska hersins og hafa verið notuð mjög sparlega í stríðinu.
„Þetta eru svakalega öflugar sprengjur, eiga að fljúga rosalega hratt og eru búin að vera þeirra helsta ógn fyrir utan kjarnorkuvopnin.“
Óskar nefnir að Patriot-loftvarnarkerfið, sem Úkraínumenn fengu frá Bandaríkjamönnum, er það eina sem getur stöðvað Kinzhal-flugskeytin.
Alls voru 18 flugskeytum skotið á Kænugarð í nótt frá norðri, suðri og austri. Loftvarnarkerfi Kænugarðs skutu niður öll loftskeytin.
„Þetta var eins og gamlárskvöld hérna,“ segir Óskar er loftvarnarkerfið skaut niður loftskeytin.
„Þetta er í fyrsta skipti í langan tíma sem hjartað mitt fer virkilega á flug.“
„Það nötraði allt og skalf hérna í nokkrum bylgjum,“ segir hann og bætir við að um sé að ræða stærstu „flugeldasýningu“ sem hann hefur séð.
„En þetta er ekki stærsta árásin, held ég. En þetta er allavega stærsta viðbragðið og lýsir því hvað borgin er komin með góðar loftvarnir.“
Loftvarnarsírenur byrjuðu að hljóma um hálf þrjú í nótt að staðartíma og hljómuðu í tvær klukkustundir.
Óskar segist ekki hafa farið að sofa fyrr en um hálf sex í morgun.
Árásin í nótt er áttunda loftárásin á Kænugarð í þessum mánuði.
„Það er búið að vera að naga í borgina. Það er alltaf eitthvað í gangi,“ segir hann og nefnir að Rússar hafa verið að beina flugskeytum sínum á Patriot-loftvarnarkerfið.
Þá séu Kinzhal-flugskeytin eina vopnið sem Rússar eiga sem getur eyðilagt loftvarnarkerfið.
Óskar segir að ef Úkraínumenn hefðu ekki fengið Patriot-loftvarnarkerfið þá hefði verið ómögulegt að stöðva Kinzhal-flugskeytin.
Óskar segir að ákveðna örvæntingu megi lesa í loftárás næturinnar, því líkt og áður sagði þá hafa Rússar farið sparlega með Kinzhal-flugskeytin.
„Það er engin stragetísk ástæða fyrir því að ráðast endalaust á höfuðborgina. Nema ef þeir myndu ná að taka út Patriot-loftvarnarkerfið, sem er mjög ólíklegt af því að það er það öflugt.“
Óskar segir að Rússar séu að hörfa þó að þessi hefðbundna gagnsókn Úkraínumanna sé ekki hafin nema að litlu leyti.
„Eina sem þetta gerir fyrir okkur er að maður missir svefn,“ segir Óskar, en er blaðamaður heyrði í honum var hann einungis búinn að sofa í tvær klukkustundir.