Fyrrverandi starfsmaður Apple hefur verið ákærður fyrir að stela viðskiptaleyndarmálum af fyrirtækinu.
Starfsmaðurinn er 35 ára karlmaður að nafni Weibao Wang, en hann er grunaður um að hafa stolið þúsundum gagna sem innihéldu upplýsingar um tækni sem Apple var að þróa og varðar hugbúnað fyrir sjálfkeyrandi bíla. BBC greinir frá.
Í ákærunni er því lýst hvernig starfsmaðurinn á að hafa starfað í Apple í um fjóra mánuði eftir að hann hafði ráðið sig til fyrirtækis í Kína sem einblíndi á þróun sjálfkeyrandi bíla. Þá hafi hann haft á brott með sér gögnin til þess að nota í nýja starfinu.
Er þetta í þriðja skipti sem fyrrverandi starfsmaður Apple sætir ákæru fyrir sambærileg atvik.