Alfred Moses, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Rúmeníu, keypti biblíueintak á rúmlega 38 milljónir Bandaríkjadala, eða tæpa 5,4 milljarða íslenskra króna. Hvergi í heiminum hefur handrit selst svo dýrum dómi á uppboði en um er að ræða eina elstu nærri heildstæðu varðveittu biblíuna á hebresku.
Greint var frá því í mars að bókin yrði til sýnis í safni í Tel Aviv á þessu ári en Moses hefur ákveðið að gefa safninu handritið.
„Biblía gyðinga er ein áhrifamesta bók í sögunni og er grundvöllur vestrænnar menningar. Ég fagna því að ég viti að hún sé í eigu gyðinga,“ segir Moses.
Handritið er talið hafa verið ritað í Ísrael eða Sýrlandi í kringum árið 900, en ekki er vitað hver skrifaði það eða fyrir hvern. Handritið gekk á milli ýmissa eigenda en hvarf síðan í 500 ár. Það birtist að nýju árið 1929 er það var í eigu Davids Solomon Sassoon. Handritið er því gjarnan kallað Sassoon-handritið.
Eins og áður hefur verið getið hefur ekkert handrit selst á hærra verði á uppboði. Það handrit sem átti metið var Leicester-handrit Leonardos Da Vincis, listmálarans goðsagnakennda. Það handrit seldist árið 1994 á 30,8 milljónir Bandaríkjadala, eða rúma 4,3 milljarða íslenskra króna.
Dýrasta skjal sem selst hefur er þó enn ein af fyrstu prentunum bandarísku stjórnarskrárinnar sem seldist á rúmar 43 milljónir Bandaríkjadala eða röska 6 milljarða króna árið 2021.