Einn er látinn og tveir særðir eftir skotárás í Rågsved í Suður-Stokkhólmi um miðnæturbil í gærkvöldi. Handtók lögregla þar fimm manns í nótt sem nú liggja undir grun um manndráp og tilraun til manndráps auk þess sem lögregla telur víst að vopnalagabrot hafi einnig verið framið en enginn hinna handteknu er enn sem komið er grunaður um það.
Hafði lögregla uppi mikinn viðbúnað í nágrenni við neðanjarðarlestarstöðina í Rågsved þar sem árásin virðist hafa verið gerð og á tímabili voru stjórnendur lestanna beðnir að stöðva þær ekki á stöðinni heldur aka rakleiðis í gegn til að fyrirbyggja að gerandi eða gerendur gætu forðað sér þá leiðina.
Ástand annars þeirra særðu er alvarlegt en hinn slapp með minni meiðsl.
„Fjöldi fólks hefur sætt yfirheyrslu og eru hinir handteknu þar á meðal,“ segir Mats Eriksson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Stokkhólmi, við sænska ríkisútvarpið SVT.
Í morgun staðfesti lögregla að hinir þrír, sem árásin beindist gegn, tengdust undirheimum borgarinnar. „Við vinnum nú að vettvangsrannsókn ræðum við almenning, söfnum vitnisburðum og svörum spurningum. Þarna var fleira fólk statt þegar þetta gerðist,“ segir Anders Bryngelsson, annar upplýsingafulltrúi lögreglu, við SVT.