Flugskeytaárásir Rússa á úkraínsku höfuðborgina Kænugarð eru orðnar níu það sem af er maímánuði. Greina borgaryfirvöld frá því að svo virtist sem tekist hefði að skjóta niður öll flugskeyti sem beint hefur verið að borginni frá mánaðamótum þótt brak úr þeim hafi í tveimur tilfellum valdið tjóni.
Hins vegar kostaði flugskeytaárás á hafnarborgina Ódessu eitt mannslíf og særði tvo að sögn embættismanna. Eins hefur mátt heyra sprengigný frá Vinnitsíja-, Khmelnytskí- og Sítómír-héruðunum í vesturhluta landsins.
Samkvæmt upplýsingum frá úkraínska flughernum tókst að skjóta niður 29 af 30 flugskeytum Rússa eina og sömu nóttina og á þriðjudaginn kváðust Úkraínumenn hafa skotið niður sex hljóðfráar Kinzhal-flaugar Rússa í árás sem lýst var sem „óvenjuþéttri“.
Í gær var greint frá því að minnst átta hefðu týnt lífinu, þar á meðal fimm ára gamall drengur, í stórskotaliðsárás nærri borginni Kherson en sökuðu þá hvorir tveggja, Rússar og Úkraínumenn, hina um að hafa ráðist á svæði þar sem óbreyttir borgarar héldu sig.
Eins og fjallað hefur verið um síðustu vikur undirbúa Úkraínumenn nú umfangsmikla gagnárás á innrásarherinn og láta embættismenn annarra landa, vestrænna, hafa eftir sér að Úkraínuher sé nú á hækkuðu viðbúnaðarstigi.
Benda þeir á að rússneskir hermenn í Úkraínu verði brátt milli steins og sleggju en taka þó fram að styrkur þeirra við víglínuna sé umtalsverður og þar hafi þeir sáldrað jarðsprengjum kringum sig um allar jarðir til varna.
Sigursæld Úkraínumanna í gagnsókninni verði hins vegar ekki metin af landvinningum þeirra heldur því hvort þeim takist að fá Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að breyta um hernaðartækni. „Áhrifin á hugsun Kremlverja“ séu að sögn embættismannanna mikilvægari en að úkraínskum hermönnum auðnist að ryðja sér braut gegnum víglínuna og að landamærunum.
Dmítró Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, fundaði í gær með kínverskum sendierindreka í Kænugarði og vísaði þar alfarið á bug öllum friðarsamningum er fælu í sér eftirgjöf Úkraínumanna á landsvæði í hendur Rússa.