„Þetta er algjörlega óraunverulegt,“ segir kona í Agder-fylki í Suður-Noregi í samtali við getraunafyrirtækið Norsk Tipping sem heldur utan um lottó og fleiri fjárhættuspil þar í landinu.
Tilefni ummæla hennar er aðalvinningur í Víkingalottóinu sem í gær, sjálfan þjóðhátíðardag Norðmanna, féll henni óskiptur í skaut, 197.710.135 norskar krónur, jafnvirði tæplega 2,6 milljarða íslenskra króna.
Er þar kominn sá vinningur sem gengur næst metvinningi Norðmanns í sama lottóspili, rúmum 216 milljónum árið 2013, sem á gengi dagsins í dag jafngildir 2,8 milljörðum íslenskra.
Hélt konan að einhver væri að gera í henni at þegar síminn hringdi og númerið á skjánum var 625-60000, númerið sem þjónustuver Norsk Tipping í Hamar í Innlandet hringir úr í alla þá sem hljóta eina milljón norskra króna eða meira í vinning.
Hún gekk svo til hvílu en það var ekki fyrr en í morgun að hún fletti númerinu upp af rælni og sá þá hvers kyns var. Bar hún þá miðann saman við vinningstölurnar í gær og var staða mála þá engum vafa undirorpin.
Getur hún að sögn Norsk Tipping vart hamið gleði sína og býðst nú fjármálaráðgjöf frá fyrirtækinu eins og öllum stórvinningshöfum. Líkurnar á að hafa sex réttar tölur af 48 og auk þess víkingatöluna svokölluðu eru einn á móti 61.000.000 svo enginn skyldi beinlínis gera ráð fyrir að vinna hátt í þrjá milljarða á miðvikudagskvöldi – en gaman ef það gerist.