Beittu rafbyssu gegn 95 ára konu

Ástralskir lögregluþjónar að störfum í borginni Melbourne 13. maí.
Ástralskir lögregluþjónar að störfum í borginni Melbourne 13. maí. AFP/Martin Keep

Ástralska lögreglan hefur staðfest að lögregluþjónar hafi beitt rafbyssu gegn 95 ára ömmu er hún gekk rólega á móti þeim, studd göngugrind, haldandi á steikarhníf.

Claire Nolan var þungt haldin eftir atvikið sem átti sér stað á hjúkrunarheimili á miðvikudaginn. Lögreglan hefur hafið rannsókn á því sem gerðist.

„Við höfum miklar áhyggjur af því sem gerðist um daginn. Þess vegna hófum við rannsóknina,” sagði Peter Cotter, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Nýju Suður-Wales.

„Þegar rafbyssunni var beitt gegn henni nálgaðist hún lögregluna en satt best að segja fór hún hægt yfir. Hún var í göngugrind en var með hníf,” bætti hann við.

Beðin um að sleppa hnífnum

Tilkynning hafði borist lögreglunni um að konan væri „vopnuð hníf”, að því er kom fram í tilkynningu lögreglunnar.

Bráðaliðar og lögreglan hvöttu Nolan til að sleppa hnífnum í samtali sem átti sér stað „í nokkrar mínútur” áður en hún gekk í átt til þeirra. Einn lögregluþjónn brást þá við með því að nota rafbyssuna, að sögn Cotters.

Konan féll aftur á bak og lenti með höfuðið í gólfinu, að sögn lögreglunnar, sem bætti við að umræddur lögregluþjónn sæti nú rannsókn.

Það tók nokkra daga fyrir lögregluna að staðfesta að rafbyssunni hefði verið beitt gegn konunni, sem ástralskir fjölmiðlar segja að glími við heilabilun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert