Ekkillinn höfðar mál gegn öldurhúsum

Lögregluembættið í Charleston-sýslu birti þessa mynd af ökumanninum, Jamie Lee …
Lögregluembættið í Charleston-sýslu birti þessa mynd af ökumanninum, Jamie Lee Komoroski.

Ekkill konu sem lést í bílslysi á brúðkaupsdag þeirra, vegna þess að drukkin kona keyrði á bíl hjónanna, hefur farið í mál við krár og veitingastaði þar sem konan á að hafa drukkið sig fulla.

CNN greinir frá þessu. 

Hin 34 ára gamla brúður, Sam­an­tha Miller frá Char­lotte í Norður-Karólínu, lést þegar kona und­ir áhrif­um áfeng­is keyrði á golf­bíl þar sem hún var farþegi á strand­vegi í Suður-Karólínu 28. apríl.

Á ábyrgð þeirra sem veittu áfengi

Þrír aðrir í golf­bíln­um slösuðust, þar á meðal brúðgum­inn Aric Hutchinson, sem hefur höfðað mál gegn eigendum nokkurra kráa og veitingastaða sem konan er sögð hafa drukkið á áður en slysið átti sér stað. 

Danny Dalto, lögmaður Hutchinsons, segir að þrátt fyrir að Jaime Komoroski hafi verið sjáanlega drukkin á öllum þessum stöðum hafi hún „áfram fengið þjónustu, verið útvegað, og/eða leyft að neyta áfengis“.

Það sé á ábyrgð þeirra sem hafa vínveitingaleyfi að neita að selja viðskiptavinum áfengi sem eru sjáanlega undir áhrifum.

Yfirmaður Komoroski á veitingastaðnum Taco Boy er sakaður um að skipuleggja starfmannaviðburð vitandi að þar myndi starfsmenn drekka óhóflega mikið magn áfengis, að því er fram kemur í kærunni.

Þrefalt leyfilegt áfengismagn

Gögn úr bíla­leigu­bíl Komoroski sýna að hún ók á 105 kíló­metra hraða, þar sem hraði er tak­markaður við 40 kíló­metra á klukku­stund.

Áfengismagn í blóði Komoroski mældist þrisvar sinnum það sem leyfilegt er eftir slysið. Hún á yfir höfði sér dóm fyrir manndráp af gáleysi og fyrir að keyra undir áhrifum með þeim afleiðingum að þrír aðrir hafi slasast alvarlega.

Tæplega 730 þúsund dollarar, eða rúmlega 102 milljónir króna, hafa safnast fyrir fjölskyldu Miller í kjölfar andláts hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert