Nýtt myndefni sýnir lögreglumann í Bandaríkjunum hanga ofan á bíl sem keyrir á fullri ferð. Um er að ræða handtöku frá árinu 2021 en myndband af henni kom fyrst fyrir almenningssjónir nú fyrir stuttu.
Frá þessu greinir bandaríski fjölmiðillinn ABC.
Lögreglumenn í borginni Carroll í Iowa-ríki stöðvuðu mann við akstur þann 5. mars árið 2021. Lögreglumennirnir komust þá að því að handtökuheimild væri í gildi gagnvart viðkomandi.
Þegar maðurinn hóf að keyra á brott steig lögreglumaður ofan á ökutækið, beindi skammbyssuhlaupinu í átt að ökumanninum og skipaði honum að stöðva bílinn.
Ökumaðurinn hlýddi ekki heldur þvert á móti og gaf í. Lögreglumaðurinn hélt því dauðataki í bílinn sem var þá kominn á fleygiferð, en hann missti að lokum takið á bílnum og féll af honum.
Lögreglumaðurinn hryggbrotnaði en hinn grunaði var handtekinn.