Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er á meðal 500 Bandaríkjamanna sem hefur nú verið bannað að heimsækja Rússland.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Rússlands segir að þetta sé gert „til að bregðast við ítrekuðum and-rússneskum refsiaðgerðum ríkisstjórnar Bidens“.
Bandaríkin tilkynntu í dag refsiaðgerðir gagnvart hundruðum fyrirtækja og einstaklinga með tengsl við Rússland vegna stríðs Rússa í Úkraínu.
„Washington ætti að vera búið að læra fyrir löngu að hverju einasta fjandsamlegu skrefi gegn Rússlandi verði svarað,“ segir í tilkynningunni.
Á meðal þeirra 500 Bandaríkjamanna sem bann Rússa á við um eru spjallþáttastjórnendurnir Stephen Colbert, Jimmy Kimmel og Seth Meyers.