Selenskí á leiðtogafundi Arababandalagsins

Volodimír Selenskí forseti Úkraínu og saudi-arabíski krónprinsinn Badr bin Sultan …
Volodimír Selenskí forseti Úkraínu og saudi-arabíski krónprinsinn Badr bin Sultan bin Abdulaziz AFP

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti er lentur í Sádi-Arabíu þar sem hann fer á leiðtogafund Arababandalagsins. Á fundinum verður m.a. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, sem er náinn bandamaður Rússa.

Um er að ræða fyrstu ferð Selenskís til Miðausturlanda eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Hann fær nú tækifæri til þess að ávarpa þjóðarleiðtoga á svæðinu en þjóðir á svæðinu eru fjarri því að vera eins sameinaðar í samstöðu sinni með Úkraínu og Evrópuþjóðirnar eru.

„Mættur til Sádi-Arabíu. Ég mun tala á leiðtogafundi Arababandalagsins,“ skrifar Selenskí á Twitter, en hann er kominn til hafnarborgarinnar Jedda. Hann bætir við að hann áætli að hitta krón­prins Sádi-Ar­ab­íu, Mohammed bin Salm­an, og aðra leiðtoga.

Selenskí fékk boðið frá Saudi-Arabíu en ekki frá skipuleggjendum leiðtogafundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert